Um Fjársýsluna

Upplýsingakerfi FJS

Starfsemi FJS tekur til yfirumsjónar með bókhaldi og launaafgreiðslu ríkisins ásamt því að sjá um innheimtur og greiðslur fyrir ríkissjóð.  Verkefnin eru því bæði umfangsmikil og sér­hæfð.  Í stofnuninni er til staðar víðtæk þekking á aðstæðum hjá ríkinu og ríkisstofnunum á sviði fjármála.  Stofnuninni er ætlað að vera leiðandi fyrir aðrar stofnanir ríkisins á sviði bókhalds og reikningshalds með þeirri tækni sem nauðsynlegt er að beita í slíku starfi.
Í aðalatriðum nýtir stofnunin þrjú upplýsingakerfi fyrir þá þjónustu sem hún veitir. Stöðugt er unnið að þróun kerfanna og reynt að aðlaga þau sem best að þörfum notenda og ríkissjóðs.


Fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins (Orri)

USB

Árið 2001 festi ríkissjóður kaup á Oracle e-Business Suite  fjárhags- og mannauðskerfi, OEBS (nefnt Orri) sem er samhæfð heildarlausn í viðskiptahugbúnaði. Kerfið keyrir á Oracle gagnagrunni og samanstendur af u.þ.b. 60 kerfishlutum. Fyrst má nefna fjárhagskerfið sem skiptist í aðalbókhald, viðskiptaskuldir, viðskiptakröfur og eignakerfi.  Þá er mannauðskerfið sem inniheldur starfsmanna- og launagreiðslukerfi ásamt ráðningar-, ferðauppgjörs- og fræðslukerfi.  Varðandi aðra kerfishluta má helst nefna: verkbókhald, vörustýringu, birgðir og pantanir og vefverslun. Bætt var við sérsniðnu vaktaáætlunar- og viðverukerfi (Vinnustund), hannað af Advania (áður Skýrr) og tengist það beint við mannauðskerfið.

Fjárhagskerfið heldur utan um bókhald ríkissjóðs og stofnana ríkisins. Kerfið er einnig notað fyrir alla uppgjörs­vinnu við gerð ríkisreiknings og aðra upplýsingagjöf.  Eignaskráningarkerfi er hluti af fjárhagskerfinu og hefur það verið sett upp hjá stofnunum. Kerfið heldur utan um alla varanlega rekstrarfjármuni.

Mannauðskerfið heldur utan um starfsmanna- og launagreiðslukerfi ríkisins. Starfsmannahlutinn hefur að geyma víðtækar upplýsingar þar á meðal um launakjör og aðrar forsendur sem þarf við launaútreikninga í launagreiðsluhlutanum. Í kerfinu eru greidd laun allra starfsmanna hjá A-hluta stofnunum og að auki hjá nokkrum B- og C-hluta stofnunum.

Vinnustund er vaktaáætlunar- og viðverukerfi sérhannað af Advania. Vinnustund heldur utan um tíma- og fjarvistarskráningar starfsmanna ásamt því að vera öflugt tæki til að skipuleggja vinnutíma þeirra. Kerfið er sérsniðið fyrir ríkisstofnanir og tengist beint við mannauðskerfið. Lögð er rík áhersla á að sem flestar ríkisstofnanir innleiði kerfið.

Aðrir kerfishlutar  sem settir hafa verið upp í Orra eru: fræðslukerfi, sjálfsafgreiðslukerfi, vörustýring, verkbókhald, birgðir, pantanir og vefverslun. Enn sem komið er hafa fáar stofnanir tekið upp þessa kerfishluta fyrir utan sjálfsafgreiðsluna en henni hefur verið úthlutað til flestra starfsmanna ríkisins.

Notendur tengjast hugbúnaðinum með vefskoðara yfir netið. Kerfið hefur verið lagað að íslenskum aðstæðum t.d. með tengingum við bankakerfið og þjóðskrá og tekur mið af íslenskum reglum um virðisaukaskatt.  Advania sér um rekstur kerfisins.

Tekjubókhaldskerfi ríkisins (TBR)

Rúlla

Tekjubókhaldskerfi ríkisins, TBR, er meðal stærstu hugbúnaðarkerfa sem hafa verið sérsmíðuð hér á landi. Kerfið var unnið af Advania (áður Skýrr) sem annast jafnframt rekstur þess og þróun. Fyrstu hlutar TBR voru teknir í notkun árið 1999. Kerfið leysti smám saman af hólmi eldra kerfi, TBI, sem var frá árinu 1981 og voru síðustu hlutar þess lagðir niður 2010.

TBR, er hið almenna innheimtukerfi ríkisins. Kerfið er upplýsingakerfi þar sem haldið er utan um innheimtu skatta og gjalda fyrir hönd ríkissjóðs, ríkisstofnana og annarra opinberra aðila. Jafnramt er í kerfinu sjálfvirk bókun vegna bókhaldsskila. TBR berast innheimtukröfur frá fjölmörgum opinberum álagningarkerfum m.a. álagningarkerfum  Ríkisskattstjóra  og Tollstjóra. Notendur kerfisins eru innheimtumenn ríkissjóðs, A-hluta stofnanir og ýmsir álagningar- og eftirlitsaðilar. Helstu flokkar innheimtukrafna eru skattar og önnur lögboðin gjöld ríkisins og sértekjur stofnana. Þá er einnig haldið utan um útgreiðslu á úrskurðuðum inneignum til gjaldenda, m.a. innskatt vegna virðisaukaskatts, ofgreidda staðgreiðslu útsvars og tekjuskatts og bætur til bótaþega, þ.e. vaxtabætur og barnabætur.

Kerfið samanstendur af níu kerfishlutum sem hver og einn er byggður utan um ákveðna verkþætti. Þeir eru álagningar-, viðskiptamanna-, greiðslu-, bankagreiðslu-, innheimtu-, bókhalds-, vanskila-, stýringa- og aðgangskerfi. Kerfishlutarnir tengjast náið innbyrðis auk þess að sækja eða fá beint upplýsingar frá landskerfum og ýmsum álagningarkerfum.

TBR er sívinnslukerfi á landsvísu, m.ö.o. allir notendur geta séð upplýsingar frá hver öðrum því sem næst á rauntíma miðað við tiltekna aðgangsstýringu.

Lánakerfi (Libra Loan)

Skjalafoss

Á árinu 2007 var tekið upp staðlað lánakerfi, Libra, til að halda utan um lán ríkissjóðs, þ. e. veitt og tekin lán sem og skuldaviðurkenningar.  Kerfið er fullgild undirbók í aðalbókhaldi ríkisins. Upplýsingar úr lánakerfinu flæða vélrænt inn í Orra, fjárhagskerfi ríkisins, og eru kerfin stemmd af með reglubundnum hætti. Seðlabankinn skráir beint inn í lánakerfið öll þau lán, bæði innlend og erlend, sem hann tekur í nafni ríkissjóðs.  Fjársýslan sér um skráningu á öðrum lánum og skuldaviðurkenningum inn í kerfið.

Jafnframt er kerfið nýtt til að halda utan um og draga fram upplýsingar um gjalddaga lána, þ. e. í tengslum við greiðslur af teknum lánum og útsendingu greiðsluseðla vegna innheimtu afborgana og vaxta af veittum lánum.  Loks er kerfið nýtt til að fá fram allar upplýsingar um stöður og hreyfingar lána við vinnslu mánaðarlegra og árlegra uppgjöra. Með tilkomu kerfisins er nú unnt að uppreikna öll lán jafnharðan í mánaðarlegum uppgjörum ríkissjóðs og hefur það verið gert frá ársbyrjun 2009.