Um Fjársýsluna

Umhverfis- og loftslagsstefna

Fjársýsla ríkisins (FJS) ætlar að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá starfseminni og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér. FJS vill leggja sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamningsins sé náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.

FJS hefur kolefnisjafnað losun sína frá árinu 2019 með kaupum á vottuðum kolefniseiningum og mun framvegis kolefnisjafna alla eftirstandandi losun. Fram til 2030 stefnir FJS á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda samtals um 40% með áherslu á að:

 • Fylgja viðmiðum grænna skrefa fyrir ríkisstofnanir
 • Færa Grænt bókhald
 • Efla vistvæna varðveislu skjala
 • Efla rafræna stjórnsýslu
 • Draga úr ferðum starfsfólks með áherslu á fjarfundi og breytt vinnulag
 • Draga úr beinni og óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda í allri starfsemi stofnunarinnar í samræmi við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar
 • Fara vel með auðlindir svo sem raforku, notkun á heitu vatni og pappír
 • Draga úr myndun úrgangs og hámarka endurvinnslu
 • Kaupa inn vistvæna vöru og þjónustu
 • Kolefnisjafna losun okkar með ábyrgum hætti
 • Efla umhverfisvitund starfsfólks með fræðslu
 • Hvetja og styðja starfsfólk til vistvæns lífstíls
 • Láta gott af sér leiða í umhverfismálum

Framtíðarsýn

Árið 2030 verður FJS orðin til fyrirmyndar í loftslagsmálum, hefur dregið saman losun sína á CO2 um 40% og þar með náð markmiðum Parísarsamkomulagsins og verið kolefnishlutlaus í meira en tíu ár.

Gildissvið

Stefna þessi tekur til umhverfisáhrifa af innri rekstri FJS og varðar allt starfsfólk stofnunarinnar. FJS er með eina starfsstöð.

Umfang

Umhverfis- og loftslagsstefna FJS fjallar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt leiðbeiningum um loftslagsstefnur opinberra aðila. Stefnan tekur til eftirfarandi umhverfisþátta sem unnt er að fylgjast með og mæla hverju sinni:

Samgöngur

 • Losun GHL vegna flugferða starfsfólks innanlands
 • Losun GHL vegna flugferða starfsfólks erlendis
 • Losun GHL vegna aksturs á leigubílum
 • Fjöldi samgöngusamninga sem stofnunin gerir við starfsfólk

Orkunotkun

 • Rafmagnsnotkun stofnunarinnar
 • Heitavatnsnotkun stofnunarinnar

Úrgangur

 • Losun GHL vegna lífræns úrgangs
 • Losun GHL vegna blandaðs úrgangs
 • Heildarmagn úrgangs sem fellur til
 • Magn útprentaðs skrifstofupappírs
 • Endurvinnsluhlutfall

Innkaup

 • Hlutfall umhverfisvottaðs skrifstofupappírs sem stofnunin kaupir
 • Hlutfall umhverfisvottaðrar prentþjónustu sem stofnunin kaupir
 • Hlutfall umhverfisvottaðra ræsti- og hreinsiefna sem stofnunin kaupir sjálf
 • Hlutfall umhverfisvottaðrar ræstiþjónustu sem stofnunin kaupir
 • Hlutfall umhverfisvottaðra matvæla sem stofnunin kaupir
 • Magn rekstrarvara sem stofnunin kaupir
 • Magn raftækja sem stofnunin kaupir
 • Magn prenthylkja sem stofnunin kaupir

Eftirfylgni og árangur

Stefnunni er fylgt eftir með innleiðingu Grænna skrefa í ríkisrekstri, sem hófst hjá FJS í mars 2019.

Árangursmælingar eru gerðar í gegnum Grænt bókhald þar sem upplýsingum um samgöngur, úrgangsmyndun, orkunotkun, neyslu og kolefnislosun frá starfseminni er safnað saman.

Fyrir 1. apríl ár hvert er Grænt bókhald fyrra árs tekið saman og því skilað í Gagnagátt Umhverfisstofnunar. Sérfræðingur á Rekstrarsviði sér um að taka bókhaldið saman.
Niðurstöður Græns bókhalds eru á vefsíðu Grænna skrefa ásamt niðurstöðum annarra ríkisstofnana og á vefsíðu FJS. Þær verða m.a. nýttar til að greina tækifæri til úrbóta, sýna fram á gagnsemi stefnunnar og halda starfsfólki upplýstu um hvernig miðar við framkvæmd hennar.

Kolefnisjöfnun

Starfsemi FJS er kolefnisjöfnuð í gegnum Kolvið sem er í samstarfi við Landvernd og Skógræktarfélag Íslands.

Umhverfis- og loftslagsstefna FJS

Hefur það hlutverk að stuðla að vernd umhverfisins og halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi stofnunarinnar í lágmarki. Stefnan er einnig hluti stefnumörkunar FJS um samfélagslega ábyrgð þar sem starfsemi stofnunarinnar tekur tillit til félagslegra, umhverfislegra og siðferðislegra þátta samfélagsins. Stefnan tekur til allrar starfsemi FJS og tekur mið af:

 • Leiðbeiningum Umhverfisstofnunar um loftslagsstefnur opinberra aðila
 • Skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamkomulaginu
 • Aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum
 • Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
 • Grænum skrefum
Umhverfis- og loftslagsstefnan er samþykkt og rýnd árlega af yfirstjórn FJS og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað á vefsíðu FJS.

Stefnan rýnd og samþykkt af yfirstjórn Fjársýslu ríkisins 6. desember 2021.