Um Fjársýsluna
  • Arnarhvoll

Sögulegt ágrip

Stutt sögulegt yfirlit

Fjársýsla ríkisins á rætur að rekja allt aftur til ársins 1910 þegar ráðinn var aðalbókari á skrifstofu Stjórnarráðsins til að annast bókhald Landssjóðs. Fyrstu lögin um starfsemi Ríkisbókhalds voru sett árið 1931 og giltu þau allt fram til ársins 1966 þegar ný lög voru sett og komið á nýrri skipan um samningu fjárlaga og bókhald ríkisins. Með lögum nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, varð Ríkisbókhald sérstök ríkisstofnun. Samkvæmt þessum lögum var hlutverk stofnunarinnar að hafa yfirumsjón með öllu bókhaldi og reikningsskilum þeirra aðila er ríkisreikningur náði til og að sjá um gerð ríkisreiknings.

Árið 1952 fluttist launaafgreiðsla ríkisins til Ríkisbókhalds, var þar til ársins 1968 þegar hún var færð undir fjármálaráðuneytið. Árið 1998 ákvað ráðuneytið að flytja launaafgreiðsluna aftur til Ríkisbókhalds þar sem talið var mikilvægt að skilja kjarasamningagerð og lagalega túlkun þeirra betur frá framkvæmd sjálfrar launaafgreiðslunnar.

Með bréfi dagsettu 1. mars 2002 fól fjármálaráðuneytið Ríkisbókhaldi að fara með verkefni embættis ríkisféhirðis. Í framhaldi af þessu lagði fjármálaráðherra fram frumvarp á Alþingi til breytinga á lögum um fjárreiður ríkisins nr. 88/1997. Þótti stofnanaheitið Ríkisbókhald hafa of þrönga skírskotun miðað við gjörbreytt hlutverk á undanförnum árum. Með samþykkt frumvarpsins í maí 2002 var nafni stofnunarinnar breytt í Fjársýslu ríkisins (FJS) og forstöðumaður hennar gegnir starfsheitinu fjársýslustjóri.

Á fyrri hluta ársins 2011 var starfsemi stofnunarinnar flutt frá Sölvhólsgötu 7 að Vegmúla 3. Var þar með brotið blað í sögu stofnunarinnar sem ávallt hafði verið staðsett í miðbæ Reykjavíkur.

Ný lög um opinber fjármál nr. 123/2015 tóku við af lögum nr. 88/1997, en þar í 64. gr.er nánar kveðið á um starfsemi Fjársýslu ríkisins.