Um Fjársýsluna

Skipurit

Fjársýslan skiptist upp í sex svið undir yfirstjórn fjársýslustjóra auk innra eftirlits, mannauðs- og gæðamála. Hverju sviði er stjórnað af forstöðumanni og ber hann ábyrgð gagnvart fjársýslustjóra á því að verkefni séu leyst af hendi. Forstöðumenn deila verkefnum til starfsmanna sinna, sjá til þess að þau séu faglega unnin og að afgreiðsla þeirra sé í samræmi við stefnu og markmið stofnunarinnar.

Skipulagið er flatt starfaskipulag og gefur það glögga mynd af starfseminni. Samkvæmt skipuritinu sinna fimm svið nokkurs konar framleiðslustarfsemi, þ.e. bókunum, greiðslum eða afgreiðslum, en eitt svið gegnir stoðhlutverki við framleiðslusviðin. Mikilvægt markmið með skipulaginu er að það sé sveigjanlegt og einskorði ekki verkefni innan tiltekins sviðs heldur styðji við samvinnu á milli sviða.

Skipurit 2022

Bókhaldssvið

Hlutverk bókhaldssviðs er yfirumsjón með bókhaldi fyrir ríkissjóð, ráðuneyti og þær ríkisstofnanir sem eru í bókhaldsþjónustu hjá FJS. Þjónustan nær annars vegar til bókunar aðsendra reikninga og hins vegar frágangs á rafrænum reikningum til greiðslu. Hún nær einnig til bókunar á innborgunum, ferða-, banka- og viðskiptareikningum. Þá annast sviðið uppgjör og bókun á tekjum ríkissjóðs. Loks fellur hér undir umsjón með stofnskrám viðfangsefna og tegunda í reikningshaldi ríkisins.

Mannauðs- og launasvið

Hlutverk mannauðs- og launasviðs er að hafa umsjón með launaafgreiðslu ríkisins sem FJS annast fyrir hönd fjármálaráðuneytisins.  Starfsemin tekur til þjónustu við ráðuneyti og ríkisstofnanir við launaafgreiðslu svo og til umsjónar með mannauðshluta Orra og Vinnustund.

Rekstrarsvið

Hlutverk rekstrarsviðs er einkum að stýra verkefnum sem snúa að rekstri, fjármálum og þjónustu stofnunarinnar.  Reksturinn snýr einkum að skrifstofuhaldinu sem felur í sér öll innkaup, símvörslu og rekstur húsnæðisins sem hefur m.a. að geyma viðamiklar skjalageymslur fyrir bókhalds- og launagögn ríkisins.  Jafnframt fellur hér undir rekstur mötuneytis fyrir starfsmenn.  Fjármálin ná yfir gerð rekstraráætlana, fjárlagatillagna og forysta við að tryggja almennt aðhald í rekstri ásamt því að fylgja eftir árangursstjórnun innan stofnunarinnar.  Þá hefur rekstrarsviðið umsjón með heimasíðu og námskeiðahaldi fyrir notendur kerfa stofnunarinnar.

Fjárreiðusvið

Hlutverk sviðsins er að sjá um rekstur og þróun Tekjubókhaldskerfis ríkisins (TBR), viðskiptakrafna í Orra (AR-kerfishlutinn), Innheimtuskilakerfis, sem skiptir staðgreiðslu á milli ríkis og sveitarfélaga, Forsendukerfis innheimtugagna og þjónusta við innheimtumenn ríkissjóðs, álagningaraðila og aðra notendur kerfanna með fræðslu og upplýsingamiðlun. Þá heldur sviðið utan um sundurliðunarbókun tekna í TBR og skilar upplýsingum til aðalbókhalds.  Ennfremur aðstoðar sviðið ríkisstofnanir við val á tekjukerfi fyrir útgáfu og innheimtu reikninga. Hlutverk sviðsins er einnig að sjá um greiðsluþjónustu fyrir ríkissjóð, ráðuneyti og þær ríkisstofnanir sem þess óska. Þá annast sviðið móttöku á innheimtufé frá innheimtuembættum ríkisins ásamt innheimtu á skuldabréfum og kröfum fyrir ríkissjóð.

Þróunar og þjónustusvið

Hlutverk sviðsins er ráðgjöf og stefnumótun í hugbúnaðar- og vélbúnaðarmálum stofnunarinnar. Nær það til allra þeirra kerfa sem stofnunin hefur umsjón með sem og eigin þarfa. Jafnframt tilheyra þessu sviði, leiðbeiningar og ýmis námskeið. 

Uppgjörssvið

Hlutverk uppgjörssviðs er að tryggja að reikningshald / reikningsskil stofnana ríkisins og ríkissjóðs sé tímanlegt og í samræmi við gildandi lög, reglur og góða reikningsskilavenju. Uppgjörssvið hefur yfirumsjón með gerð ríkisreiknings.