Um Fjársýsluna

Mannauðs- og jafnréttisstefna FJS

Mannauðsstefna

Mannauðsstefnan veitir yfirsýn yfir starfsumhverfið. Hún er starfsmönnum til leiðbeiningar um ábyrgð sína, réttindi og skyldur og er ætluð til að stuðla að gagnkvæmum skilningi milli starfsmanns og vinnuveitanda.  FJS leggur áherslu á liðsheild, starfsánægju, gagnkvæma virðingu og gott starfsumhverfi með öflugum hópi starfsmanna. Það er hæft starfsfólk, metnaður þess, kraftur og hollusta, sem er lykillinn að farsælum rekstri stofnunarinnar.  Hjá Fjársýslunni njóta allir sömu möguleika til endurmenntunar, starfsþjálfunar, starfsframa og launa.  Einelti og kynferðisleg áreitni er ekki liðin hjá FJS.

Ráðningar og starfslok

FJS leggur áherslu á að faglegt og skipulagt ráðningarferli sem miðar að því að hæfasti umsækjandinn verði ráðinn hverju sinni.  Um ráðningar og starfslok og ferli þeirra að öðru leiti fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins  nr. 70/1996.

Móttaka nýliða

FJS leggur áherslu á að nýjir starfsmenn fái hlýjar móttökur, fullnægjandi kynningu á stofnuninni og starfseminni og að aðstaða þeirra sé tilbúin á fyrsta vinnudegi. Fjársýslan tryggir að nýjir starfmenn fái viðeigandi starfsþjálfun til þess að þeir geti sinnt starfi sínu með öruggum og fullnægjandi hætti.

Starfsþróun og starfsþjálfun

Starfsþróun er á ábyrgð starfsmanns og næsta yfirmanns.  Starfslýsing er fyrir öll störf hjá FJS og eru þau grunnur að starfsmannasamtölum sem fara fram einu sinni á ári. Í starfsmannasamtölum fer fram umræða um allt sem snertir starfið. Lögð er áhersla á þarfir, hvatningu frammistöðu og starfsþróun. Í starfsmannasamtölum er lagður grunnur að fræðslu starfsmanna. Mikilvægt er að starfsfólk þekki þá möguleika sem þau hafa til stafsmenntunar og símenntunar hjá Fjársýslunni sem og möguleika hjá stéttarfélögum.

Samþætting einkalífs og starfs

FJS  vill  beita  sér  fyrir  því að starfsmenn geti samræmt starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu  eins vel og kostur er. Slíkt er mögulegt  með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu eftir því sem við verður komið og aðstæður leyfa.

Annað

Í sérstakri starfsmannahandbók á innra neti FJS er gerð frekari grein fyrir möguleikum starfsmanna til starfs- og símenntunar, möguleikum til samþættingu einkalífs, styrkja og ýmislegt annað er varðar starfsumhverfi FJS og réttindi og skyldur starfsmanna.


Jafnréttisstefna

Markmið

Jafnréttisstefna FJS er gerð til að vinna að jafnri stöðu starfsmanna óháð kyni eins og getið er um í lögum umjafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr.10/2008. Þar segir í 18. grein að atvinnurekendur skuli markvisst vinna að því að jafna stöðu kynjanna og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Leggja skal sérstaka áherslu á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. Í sömu lagagrein segir að stofnanir með 25 starfsmenn eða fleiri skuli setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið inn í starfsmannastefnu sína. Þar skal m.a. tilgreina markmið og gera áætlun um hvernig markmiðunum skuli náð þannig að starfsmönnum séu tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 19.–22. gr.laganna. Jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu skal endurskoða á þriggja ára fresti.

Ábyrgð

  • Fjársýslustjóri ber endanlega ábyrgð á að áætluninni sé fylgt eftir.
  • Forstöðumenn FJS, bera sameiginlega ábyrgð á framgangi jafnréttismála í samræmi við   áætlunina, hver fyrir sitt svið.
  • Mannauðsstjóri FJS ber ábyrgð á að áætluninni sé fylgt eftir í umboði fjársýslustjóra þ.m.t. að gera  tölfræðilegar úttektir árlega er varða áætlunina, sinna eftirfylgni, endurskoða og gera tillögur um breytingar ef þörf krefur.
  • Starfsfólk FJS ber ábyrgð á því að sýna samstarfsfólki og viðskiptavinum stofnunarinnar  virðingu án tillits til kynferðis, skoðana, aldurs, efnahags, trúarbragða, litarháttar, þjóðernis eða stöðu þeirra að öðru leyti.

Gildissvið

Jafnréttisstefna þessi tekur til allra starfsmanna FJS og er kynnt starfsmönnum árlega.

19. gr. Launajafnrétti. Kaup, kjör, aðbúnaður, mannaráðningar og uppsagnir

Við ákvörðun launa skal þess gætt að einstaklingum sé ekki mismunað eftir kyni. Viðmiðin sem lögð eru til grundvallar við launaákvörðun skulu vera hin sömu fyrir kynin.  Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara að öðru leyti fyrir  sambærileg störf. Með kjörum í þessu sambandi er, auk launakjara, átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin eru til fjár.

20. gr. Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun
Starfsþjálfun og endurmenntun

Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum og körlum. Markmiðið er að jafna stöðu kynjanna innan FJS og að störf innan stofnunarinnar flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Viðmiðin sem lögð eru til grundvallar við mannaráðningar skulu vera hin sömu fyrir karla og konur. Hið sama gildir um úthlutun verkefna, tilfærslu í störfum og uppsögn. Í þessu skyni skal stofnunin notast við kynhlutlaus viðmið um frammistöðu í starfi.
Konur og karlar skulu njóta sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar í því skyni að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings öðrum störfum innan stofnunarinnar.

21. gr. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs.
Samþætting einkalífs og starfs

FJS  vill  beita  sér  fyrir  því að starfsmenn geti samræmt starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu  eins vel og kostur er. Slíkt er mögulegt  með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu eftir því sem við verður komið og aðstæður leyfa. Starfsmenn geta snúið sér til forstöðumanns vegna slíkra beiðna. Ákvörðun um slíkt er tekin í samráði við mannauðsstjóra.  

22. gr. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

Úrræði og leiðbeiningar (verkferlar) eru kynnt starfsmönnum  einu sinni á ári.  Yfirmenn stofnana skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað. Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni og einelti er ekki liðið hjá FJS. Í starfsmannahandbók á innri vef stofnunarinnar eru leiðbeiningar fyrir starfsfólk og stjórnendur ef bregðast þarf við, komi slík mál upp. Nýjum starfsmönnum er sérstaklega bent á þessar upplýsingar. Einnig eru aðgengilegar á innra vef fræðslu- og leiðbeiningarit fyrir starfsfólk til að átta sig betur á óviðeigandi hegðun á vinnustað og hvernig á að bregðast við slíku og ítarlegri leiðbeiningar fyrir stjórnendur til að fyrirbyggja og bregðast við einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.  Starfsfólki og stjórnendum er bent sérstaklega á hvar þessar upplýsingar megi finna og hvatt til að kynna sér þær.

Aðgerðaráætlun fyrir jafnréttisstefnu FJS

20. gr. Starfsmannaupplýsingar og laus störf

Einu sinni á ári er safnað saman kynskiptum tölfræðiupplýsingum um;

  • fjölda starfsmanna eftir sviðum og stöðugildum
  • fjölda stjórnenda eftir sviðum og stöðugildum
  • auglýst störf á árinu, fjölda karla og kvenna sem sóttu um störfin og hverjir voru ráðnir til starfa.

Þetta er liður í að jafna stöðu kynjanna innan FJS og koma í veg fyrir að störf innan stofnunarinnar flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Upplýsingar um fjölda starfsmanna og fjölda stjórnenda þessa þætti eru birtar í ársskýrslum Fjársýslunnar sem má finna á vef FJS. Upplýsingar um ráðningar eru sendar gegnum tölvupóst á starfsmenn eða birtar á innri vefsíðu hverju sinni.

Komi fram ósk frá umsækjanda um rökstuðning á ráðningu skulu þær upplýsingar fylgja tölfræðiupplýsingum í skýrslu til Fjársýslustjóra og forstöðumanns rekstrarsviðs. Komi fram aðrar upplýsingar um að ómálefnalegar ástæður hafi ráðið ráðningu eða jafnréttislög brotin skal það einnig koma fram í tölfræðiskýrslu.

Kyngreindar upplýsingar eru teknar saman fyrir 1.feb ár hvert. Skýrsla er send forstöðumanni rekstrarsviðs og Fjársýslustjóra sem kallar til fundar telji hann að rannsaka þurfi hvort ómálefnalega ásstæður hafi legið að baki ráðningu eða jafnréttislög brotin. Komi upp mál þar sem grunur er um að jafnréttislög hafi verið brotin skal bregðast sem fyrst við með tilkynningu og upplýsingum til Fjársýslustjóra og forstöðumanns rekstrarsviðs sem ásamt mannauðsstjóra yfirfara málið og beita viðeigandi lausnum. Öll slík mál skulu skjöluð í skjalavistunarkerfi FJS . Áb.mannauðsstjóri

19. gr. Launajafnrétti

Samkvæmt jafnlaunastefnu fer árlega(fyrir lok feb ár hvert) fram launagreining allra starfsmanna. Kannað er hvort um kynbundin launamun sé að ræða. Bregðast skal við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti. Ef um óútskýrðan mun hjá einstaklingi er að ræða skal bregðast við strax.
Áb. Mannauðssjóri fyrir 1. feb ár hvert.

Starfsþjálfun og endurmenntun

Í árlegri skýrslu um starfsmannamál skal gerð samantekt þar sem fram kemur hversu margir karlar og hversu margar konur í sambærilegum störfum hafa sótt endurmenntun. Nýliðum skulu kynntar verklagsreglur um námskeið og endurmenntun í starfsmannahandbók. Komi í ljós munur á aðgengi starfsfólks til endurmenntunar, á grundvelli kyns, skal grípa til aðgerða. Í starfsmannasamtölum er farið yfir óskir starfsmanna varðandi endurmenntun, þeim safnað saman og rýndar til synjunnar eða samþykkis.
Áb. mannauðsstjóri fyrir 1.feb ár hvert.

21. gr. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Kanna möguleika til að skapa aukinn sveigjanleika í skipulagningu vinnu með tilliti til jafnræðis fyrir starfsfólk, óháð kynferði. Upplýsa starfsfólk um lögbundin réttindi vegna veikinda barna svo og fæðingar- og foreldraorlofs með því að upplýsa þá hvernig má nálgast upplýsingar um þessa þætti í starfsmannahandbók á innri vef Fjársýslunnar. Feður jafnt sem mæður verða hvött til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs og veikindadaga vegna veikinda barna. Karlar jafnt sem konur hvött til að
nýta sér rétt sinn og þann sveigjanleika sem stofnunin býður upp á til leyfis vegna annarra brýnna fjölskylduaðstæðna.
Áb.Mannauðsstjóri fyrir 1.feb ár hvert.

22. gr. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

Eineltisáætlun FJS sem nær yfir einnig kynbundið ofbeldi má finna á ytri- og innri vef FJS. Áætlunin er reglulega kynnt fyrir starfsfólki (tvisvar á ári og oftar ef þurfa þykir) ásamt jafnréttisstefnu, upplýsingum um kynbundið ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni sem finna má á innri vef FJS og fræðsluefni og leiðbeiningum m.a. ferlum fyrir starfsfólk og stjórnendur til að átta sig betur á óviðeigandi hegðum á vinnustað og hvernig á að bregðast við slíku. 

Áb. Mannauðsstjóri fyrir lok febrúar og nóvember ár hvert.

Endurskoðun

Áætlunin skal endurskoðuð á þriggja ára fresti. Næsta endurskoðun er því 31.07.2022

Reykjavík 31.07.2019

Samþykkt Jafnréttisáætlun Fjársýslunnar                                              

______________________________

Pétur Ó. Einarsson
Mannauðsstjóri