Útgáfur

Þjónustugátt fyrir viðskiptavini FJS

9.7.2021

Fjársýsla ríkisins hefur tekið í notkun þjónustugátt fyrir viðskiptavini. Þessi þjónustugátt er hugsuð til að taka á móti erindum og gögnum frá viðskiptavinum og verður samskiptaform milli FJS og þeirra. Hægt er að senda erindi í þjónustugáttina á hvaða tíma sólarhringsins sem er, en þeim verður svarað eins fljótt og auðið er. Þjónustugáttin er vöktuð af sérfræðingum FJS sem býr yfir þekkingu og reynslu til þess að bregðast við þeim erindum sem berast.

Fjölmörg erindi eða beiðnir um aðstoð berast Fjársýslunni á degi hverjum. Þjónustugáttin er fyrst og fremst hugsuð sem samskiptaform vegna þjónustu við ráðuneyti og ríkisaðila sem eiga í reglulegum samskiptum við FJS vegna aðstoðar við bókhald, mannauð, uppgjör, greiðslur, innheimtu, rafræna reikninga, aðgang að kerfum s.s. Orra, Akra og TBR, og Microsoft-leyfi ríkisaðila, svo eitthvað sé nefnt. Áfram er hægt að senda stök erindi til FJS með því að smella á „Hafa samband“ og senda fyrirspurn af forsíðu fjs.is.

Með tilkomu þjónustugáttarinnar verður tryggt að öll erindi fari í réttan farveg og fái viðeigandi úrlausn á öruggan og skilvirkan hátt. Þetta auðveldar yfirsýn yfir erindi og mál sem koma upp og styðja þannig við bætta þjónustu á sem skilvirkastan hátt. Til þess að senda erindi gegnum þjónustugáttina þarf notandi að búa til aðgang ásamt lykilorði til að auðvelda yfirsýn yfir stöðu mála. Leiðbeiningar um hvernig aðgangur er búinn til má finna hér .

Fjársýslan vinnur sífellt að leiðum til að veita betri þjónustu og er þetta liður í þeirri vinnu og von okkar að viðskiptavinir verði fljótir að tileinka sér þetta fyrirkomulag.