Útgáfur

Sjálfsafgreiðsla í greiðsludreifingu hjá innheimtumönnum ríkissjóðs

28.5.2022

Ný sjálfsafgreiðsluþjónusta á Ísland.is gerir notendum kleift að gera greiðsluáætlun og dreifa greiðslum opinberra gjalda á þeim stað og tíma sem þeim hentar. Sem dæmi geta notendur sjálfir gert áætlanir um greiðslu flestra gjalda, svo sem skatta og önnur gjöld, undir fjármálum á Ísland.is.

Um mánaðamótin verða niðurstöður álagningar einstaklinga 2022, vegna tekna 2021, birtar á þjónustuvef Skattsins þar sem skattaálagningu síðasta árs er sjálfkrafa dreift á 7 eða 3 gjalddaga. Vilji notendur breyta þessari dreifingu, er með einföldum hætti hægt að nota nýju þjónustuna til að gera greiðsluáætlun og lækka mánaðarlegar greiðslur eftir greiðslugetu.

Fjármál hafa verið í þróun á Mínum síðum Ísland.is fyrir einstaklinga og fyrirtæki með það að markmiði að auka þægindi og gagnsæi upplýsinga. Notendur geta séð sundurliðun skulda og/eða inneigna hjá ríkissjóði og stofnunum sem og hreyfingar, greiðsluseðla og kvittanir. Nú um mánaðamótin bætast greiðsluáætlanir við það yfirlit og geta einstaklingar þá einnig dreift skuldum sínum sjálfir en stefnt er að því að fyrirtæki geti gert slíkt hið sama síðar á árinu.

Hátt í 20.000 greiðsluáætlanir á hverju ári

Á ári hverju eru gerðar á bilinu 17.000 – 20.000 greiðsluáætlanir og hefur ferlið í för með sér talsverða handavinnu, bæði fyrir notendur sem og starfsmenn innheimtumanna ríkissjóðs. Með þessari nýju þjónustu er dregið verulega úr þeirri handavinnu og áætlunin gerð sjálfkrafa og birt bæði í pósthólfinu sem og Mínum síðum á Ísland.is.

Verkefnið er samstarfsverkefni Fjársýslu ríkisins, Skattsins, innheimtumanna ríkissjóðs og Stafræns Íslands, einingar innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem vinnur að eflingu stafrænnar þjónustu.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Ég hef áður sagt að hið opinbera eigi að vera meira eins og snjallsími – aðgengilegur vettvangur fyrir þjónustu, upplýsingar og aðstoð við daglegt líf. Við höfum náð miklum árangri undanfarið og þetta skref er einn liður í því. Í stað tímafrekra símtala og samskipta við ríkisstofnun er málið einfaldlega leyst með nokkrum smellum, með tilheyrandi hagræði fyrir alla sem að því koma.“

Snorri Olsen, ríkisskattstjóri:

„Þetta er mikið framfaraskref fyrir okkar viðskiptavini sem geta nú afgreitt einfaldar greiðsluáætlanir sjálfir hvenær sem þeim hentar óháð opnunartíma.“

Ingþór Karl Eiríksson fjársýslustjóri:

„Greiðsluáætlanir eru enn ein þjónustan til að auka þægindi og aðgengi að fjármálum ríkisins fyrir einstaklinga og fyrirtækja undir Fjármál inná Ísland.is. Hingað til hefur verið hægt að sjá stöðu gagnvart ríkissjóði og stofnunum, allar hreyfingar, greiðslukvittanir, greiðsluseðla, reikninga, o.fl. inná síðunni og er þetta góð viðbót. Í framhaldi munum við svo bæta við enn fleiri þjónustuþáttum."


Nánari upplýsingar um greiðsluáætlanir veita Skatturinn og sýslumenn utan höfuðborgarsvæðisins.