Útgáfur

Áhrif verkfalls háskólamenntaðra starfsmanna FJS

19.4.2015

FHSS hefur boðað verkfall hjá Fjársýslu ríkisins (FJS) frá 20. apríl nk. til og með 8. maí. Hér að neðan eru vænt áhrif verkfallsins á þá þjónustu sem FJS veitir dregin saman í stuttu máli.

 1. Almennt um áhrifin
  Verkfallið nær til 28 af 72 starfsmönnum FJS. Undanþegnir verkfalli eru 5 félagsmenn í FHSS. Augljóslega mun verkfallið hafa víðtæk áhrif á starfsemi stofnunarinnar og þá þjónustu sem hún veitir. Á það við hvort heldur er gagnvart ráðuneytum, stofnunum, fyrirtækjum eða almenningi. Stór hluti verkefna frestast og má búast við að taki langan tíma að vinna upp þann „hala“ sem myndast. Þar við bætast áhrif af sumarorlofstöku starfsmanna.

 2. Launavinnsla
  Allir starfsmenn sem koma að launavinnslu eru undanþegnir verkfalli þannig að ekki er búist við miklum áhrifum á þá þjónustu sem veitt er.  

 3. Útborgun barna- og vaxtabóta
  Ráðgert var að standa skil á barna- og vaxtabótum til rétthafa með hefðbundnu sniði þann 30. apríl nk. Sótt hefur verið um heimild til undanþágunefndar Bandalags háskólamanna fyrir tvo starfsmenn, félagsmenn í FHSS, til að annast vinnslur í tengslum við greiðslurnar á tímabilinu 20.-27. apríl nk., með það fyrir augum að greiða þær til bótaþega á tilsettum tíma þann 30. apríl nk. Beðið er niðurstöðu nefndarinnar en hún er væntanleg í dag, sunnudag, eða á morgun.

 4. Tölvukerfi
  Öll kerfi FJS verða áfram aðgengileg og rafræn gögn munu flæða óhindrað inn í þau. Vandamálin geta hins vegar orðið ef frávik koma upp sem ekki verður unnt að bregðast við. Einnig má gera ráð fyrir að keyrslur geti „strandað“ sem ekki verði leyst úr. Ljóst er að notendaþjónusta við TBR og Orra verður takmörkuð.

 5. Greiðsluseðlar og innheimtuþjónusta
  Ekki verður tekið við kröfum til innlestrar í TBR. Hvorki verða sendir út greiðsluseðlar eða kröfur sendar í heimabanka. Þá verður veruleg röskun á útgáfu reikninga í Orra (AR) hjá greiðsluþjónustu.  
  Rétt er að vekja athygli á því að þrátt fyrir að kröfur verði ekki sendar út til gjaldenda vegna opinberra gjalda þá ber þeim eftir sem áður að standa skil á greiðslum til ríkissjóðs fyrir gjalddaga. Sama gildir um greiðslu tolla. Unnt er að standa skil á þessum greiðslum hjá innheimtumönnum ríkissjóðs. Sjá tilkynningar þar um bæði hér á vefsíðu FJS sem og hjá innheimtumönnum.

 6. Rafrænir reikningar og samþykktarferill
  Þessi ferill er að mestu unninn af starfsmönnum sem verða í verkfalli og á það við um tæknivinnuna, móttöku reikninga og umsjón með bókun og samþykkt þeirra. Búast má við verulegri röskun á bókun og samþykktarferli. Flestir reikningar eiga að flæða inn í Orra (AP- kerfið) og ef nauðsyn krefur þá er unnt að greiða valda reikninga. Ekki verður unnið úr reikningum sem stofnanir hafna í samþykktarferli.

 7. Greiðslur fyrir ríkissjóð, ráðuneyti og ríkisstofnanir 
  Allir starfsmenn ríkisfjárhirslu verða við vinnu meðan á verkfalli stendur. Háskólamenntaðir starfsmenn sem þar starfa, þ.e. varafjársýslustjóri og einn sérfræðingur, eru undanþegnir verkfallsskyldu. Almennt er búist við að þjónustan gangi tiltölulega snurðulaust en í vissum tilvikum geta tæknilegir örðugleikar hindrað greiðslur og á það ekki síst við um rafræna reikninga. Óhjákvæmilegar afleiðingar þessa geta leitt af sér að kostnaður og dráttarvextir bætist ofan á reikningsfjárhæðir.

 8. Uppgjör stofnana  og VSK uppgjör
  Vinna við uppgjör mun stöðvast algerlega.

 9. Mánaðaryfirlit jan – mars og ársfjórðungsyfirlit
  Ekki verður unnt að vinna þessi yfirlit á meðan verkfall varir.

 10. Ríkisreikningur 2014
  Verkfallið mun væntanlega hafa áhrif á lokavinnslu við reikninginn.  

 11. Þjónusta við Orra

  a. Komi til villu í flæði rafræns reiknings þarf leiðrétting að bíða þar til verkfalli        lýkur
  b. Eftirlit, þjónusta og aðstoð við samþykktarferil rafrænna reikninga stöðvast
  c. Lokað verður fyrir afhendingar aðrar en neyðarafhendingar
  d. Lakari þjónusta við notendur

 12. Þátttaka í vinnuhópum í tengslum við frumvarp til laga um opinber fjármál (LOF)
  Ýmsir starfsmenn taka virkan þátt í starfi vinnuhópa sem vinna að undirbúningi nauðsynlegra breytinga sem tengjast upptöku LOF. Sótt hefur verið um undanþágu fyrir 2 starfsmenn til þátttöku í fundum með sérfræðingum AGS dagana 27.-30. apríl nk.