Útgáfur

Launabreytingar samkvæmt lögum nr. 79/2019 og leiðrétting ofgreiddra launa

1.7.2022

Í lögum nr. 79/2019 er kveðið á um að laun þjóðkjörinna manna, ráðherra og tiltekinna embættismanna ríkisins skuli taka breytingum 1. júlí ár hvert samkvæmt hlutfallslegri breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júlí ár hvert.

Fjársýsla ríkisins uppfærir krónutölufjárhæð launa þessa hóps ár hvert til samræmis við tölur Hagstofunnar í samráði við kjara- og mannauðssýslu ríkisins. Í ljós hefur komið að allt frá gildistöku laganna hefur viðmið við framkvæmdina verið launavísitala ríkisstarfsmanna, en ekki það viðmið sem tilgreint er í lögunum, þ.e. meðaltalsbreyting reglulegra launa ríkisstarfsmanna milli ára.

Við framkvæmd hækkunar launa þessa hóps hefur því ekki verið notast við lögbundið viðmið frá gildistöku laganna og laun hækkað meira en þau áttu að gera. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið ákvörðun um leiðréttingu vegna þessa og að farið verði fram á að viðkomandi endurgreiði ofgreidd laun frá gildistöku laganna.

Heildarfjöldi einstaklinga sem hafa fengið laun sem leiðrétt verða er um 260 og hafa þeim verið send bréf um þetta efni, um hvaða upphæðir ræðir í hverju tilviki og útfærslu á innheimtu. Verður greiðslan ýmist dregin af launum eða kröfur stofnaðar í jöfnum hlutum í 12 mánuði. Eru hlutaðeigandi beðnir velvirðingar á því óhagræði sem þetta kann að hafa í för með sér og mun Fjársýslan gera það sem hægt er til að aðstoða hvern og einn. Hafi viðkomandi óskir um annað endurgreiðslutímabil eða aðrar athugasemdir er bent á að senda erindi á netfangið endurgreidsla@fjs.is fyrir 15. ágúst n.k.

Þann 1. júlí munu laun verða greidd samkvæmt réttum launataxta og taka breytingum í samræmi við það viðmið sem fram kemur í lögum nr. 79/2019. Þeir sem eru á fyrirframgreiddum launum fá hækkun 1. júlí í samræmi við það. Eftirágreidd laun 1. júlí verða einnig greidd í samræmi við rétt viðmið, þannig að laun fyrir júnímánuð verða lægri en laun fyrir maímánuð.


Spurningar og svör:

Hvert er fjárhagslegt umfang?
Uppsöfnuð ofgreidd laun nema alls um 105 m.kr.

Hver er fjöldi einstaklinga sem fengið hafa laun sem leiðrétt verða og þurfa að endurgreiða þau?
Alls hafa um 260 einstaklingar, þar af eru 215 enn í starfi, fengið ofgreidd laun sem krafðir verða um endurgreiðslu.

Hversu háar fjárhæðir þarf að greiða til baka?
Algengt er að endurgreiðslufjárhæð svari til um þriðjungs einna mánaðarlauna hjá þeim sem þáðu laun yfir allt tímabilið. Endurgreiðslan fer fram í áföngum á 12 mánaða tímabili.

Hverjir eru þetta?
Hópurinn sem fellur undir lög nr. 79/2019 er eftirfarandi:

  1. þjóðkjörnir fulltrúar þ.e. forseti og alþingismenn; ráðherrar
  2. hæstaréttar-/ landsréttar-/ og héraðsdómarar
  3. saksóknarar
  4. lögreglustjórar
  5. ráðuneytisstjórar
  6. seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri
  7. ríkissáttasemjari

Hvenær uppgötvaðist að ekki hafði verið notast við tilgreint viðmið samkvæmt lögum?
Verklagið við launabreytingar þeirra sem falla undir lög nr. 79/2019 er þannig að Fjársýsla ríkisins uppfærir krónutölufjárhæð launa þeirra sem falla undir lögin ár hvert til samræmis við tölur Hagstofunnar í samráði við kjara- og mannauðssýslu ríkisins.

Við undirbúning launabreytinga fyrir árið 2022 kom í ljós að frá gildistöku laganna hafði viðmið við framkvæmdina verið launavísitala ríkisstarfsmanna, en ekki það viðmið sem tilgreint er í lögunum, þ.e. meðaltal reglulegra launa ríkisstarfsmanna. Um leið og þetta varð ljóst var brugðist við með nýjum verkferlum og greiningu á leiðréttingu ofgreiddra launa.

Hvers vegna er gerð krafa um endurgreiðslu?
Afstaða fjármála- og efnahagsráðuneytisins er sú að nauðsynlegt sé, þar sem laun hafa verið ofgreidd, að leiðrétta það með því að krefja viðkomandi um endurgreiðslu ofgreiddra upphæða.

Hvernig breytast laun forsetans, forsætisráðherra, fjármálaráðherra ?
Rétt laun þessara aðila má finna á vef Stjórnarráðsins.

Hvernig er með skattamál þeirra sem hafa fengið ofgreidd laun?
Fjársýslan mun leiðrétta greiðslur vegna staðgreiðslu skatta innan ársins 2022. Leiðrétta þarf skattframtöl vegna áranna 2019, 2020 og 2021. Fjársýslan mun upplýsa Skattinn um leiðréttingu á launum þessa hóps og mun Skatturinn gera viðeigandi breytingar á skattframtölum hvers og eins.