Útgáfur

Álagningarvinnsla árið 2020

29.5.2020

Álagningarvinnslu árið 2020 fyrir einstaklinga er lokið. Fjársýsla ríkisins hefur unnið að þessari álagningarvinnslu í samvinnu við Skattinn undanfarna mánuði. Álagningin birtist á vefgáttunum island.is og skattur.is þann 29. maí.

Föstudaginn 29. maí, verða greiddar út inneignir að upphæð 21,8 milljarða til rúmlega 170 þúsund einstaklinga. Álagningarseðlar eru ekki sendir út á pappír.

Fjöldi einstaklinga á skattgrunnskrá er rúmlega 313 þúsund, bæði þeir einstaklingar sem telja fram og fengu áætlun. Samhliða álagningu höfum við bætt upplýsingaskil til launagreiðenda, sem eru rúmlega 13 þúsund og geta þeir nú sótt launagreiðendakröfur inn á island.is. Um 122 þúsund launagreiðendamerktir viðskiptavinir eru í skuld við innheimtumann eftir álagningarvinnsluna. Um 72% af þeim fá sendar kröfur rafrænt á launagreiðanda eða um 87 þúsund viðskiptavinir. Jafnframt verður gjaldendum sem ekki eru merktir launagreiðenda sendur greiðsluseðill í heimabanka sinn.

Starfsmenn Fjársýslunnar hafa unnið að nýjungum í samstarfi við Ísland.is sem birtast á vefnum. Nú geta viðtakendur skoðað stöðu sína við innheimtumann ríkissjóðs eins og hún er í dag.

Þegar komið er inn í pósthólfið á island.is skal velja fjármál (til vinstri) og þá birtist staða þín í dag við Ríkissjóð. Staðan skipist niður á gjaldflokka. Hægt er velja ákveðinn gjaldflokk og þá birtist sundurliðun á honum. Einstaklingar geta nálgast greiðsluseðla fyrir þinggjöldum á island.is ef krafa er ekki send til launagreiðanda.

Í stillingum efst í hægra horni er hægt að breyta ýmsum upplýsingum er varða viðtakandann sjálfan svo sem bankaupplýsingum og netfangi. Á vefnum verða upplýsingar um þær stofnanir sem geta veitt frekari aðstoð, sé þess þörf.

Hér að neðan sjáum við dæmi um hvernig þjónustan gæti birst hjá viðtakanda. Ef smellt er á „þing- og sveitarsjóðsgjöld“ kemur nánari sundurliðun á viðkomandi gjaldflokki:

Álagningarvinnsla 2020